Örnólfur Smári er Íslandsmeistari í póker 2019!

Örnólfur Smári Ingason er Íslandsmeistari í póker 2019!
 
Íslandsmótinu var að ljúka síðdegis á sunnudag eftir stutta og snarpa viðureign þeirra sem komust á lokaborð. Aðeins tók 3 og hálfa klukkustund að knýja fram úrslit en lokaborðið hófst kl 13:30 og síðasta hendin var gefin kl 16:59.
 
Örnólfur var með næststærsta stakkinn í upphafi á þriðja degi mótsins en þá voru 11 eftir. Hann komst svo upp fyrir Egil Þorsteinsson, sem var lengi vel með helming allra chippa í umferð, þegar hann tók út Magnús Böðvarsson sem endaði í 4.sæti og siðan Má Wardum sem lenti í 3.sæti.
 
Viðstaddir bjuggust þá við langri heads-up viðureign enda var meðalstakkur þá um 120bb. Það tók hins vegar aðeins hálftíma að klára heads-up viðureignina en þá endaði Egill all-in með AK á móti 77 hjá Örnólfi og sjöurnar héldu.
Alls tóku 119 þátt í mótinu og var þetta fjölmennasta Íslandsmót sem haldið hefur verið síðan 2015 en fjöldi þátttakenda hefur verið að vaxa jafnt og þétt síðustu 2 árin.  Verðlaunafé var samtals 6.110.000 kr. og skiptist á milli 18 efstu keppenda á eftirfarandi hátt:
  1. Örnólfur Smári Ingason, 1.500.000
  2. Egill Þorsteinsson, 950.000
  3. Már Wardum, 660.000
  4. Magnús Valur Böðvarsson, 530.000
  5. Ívar Örn Böðvarsson, 420.000
  6. Halldór Már Sverrisson, 330.000
  7. Inda Hrönn Björnsdóttir, 260.000
  8. Þorri Þorsteinsson, 200.000
  9. Gylfi Þór Jónasson, 200.000
  10. Hákon Baldvinsson, 150.000
  11. David Friðriksson, 150.000
  12. Steinn Thanh Du Karlsson, 120.000
  13. Rúnar Rúnarsson, 120.000
  14. Sævar Ingi Sævarsson, 120.000
  15. Agnar Jökull Imsland Arason, 100.000
  16. Styrmir Franz Arnarsson, 100.000
  17. Arnar Freyr Logason, 100.000
  18. Inga Guðbjartsdóttir, 100.000

Þess má geta að tveir komust á lokaborð annað árið í röð, þeir Ívar Örn Böðvarsson, Íslandsmeistarinn frá því í fyrra, og Þorri Þorsteinsson og verður það að teljast nokkuð merkilegur árangur. Og það þarf vart að geta þess að Örnólfur er yngsti Íslandsmeistari sem við höfum átt en hann á enn nær 3 mánuði eftir í tvítugt.

Segja má að mótshelgin hafi tekist frábærlega í nær alla staði og stjórn PSÍ vill þakka öllum sem tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd mótsins kærlega fyrir vel unnin störf. Að sjálfsögðu hefðum við viljað fá fleiri gjafara til starfa en við þökkum þeim gjöfurum sem tóku þátt í þessu verkefni með okkur.
 
Viktor Lekve sá um mótsstjórn með glæsibrag og einnig Andri Geir Hinriksson sem stóð vaktina sem mótsritari og aðstoðardómari og er þetta í fyrsta sinn sem höfum mótsstjóra í móti á vegum PSÍ með TDA vottun en Viktor lauk því prófi nú í vikunni. Jón Ingi Thorvaldsson, gjaldkeri, sá um að stýra undirbúningi og skipulagningu mótsins og einnig komu Már Wardum, formaður og Einar Þór Einarsson, ritari að undirbúningnum og eiga þeir miklar þakkir skildar fyrir að koma þessu öllu heim og saman.
 
Hugaríþróttafélag Íslands fær bestu þakkir fyrir frábært samstarf en þar var þétt undanmótadagskrá sem skilaði 30 miðum í mótið, auk þess sem félagið útvegaði aðstöðu fyrir lokaborðið og 20k lokamót helgarinnar. Einnig hélt Spilaklúbbur Norðurlands röð undanmóta sem skiluðu 5 keppendum. Að auki áttum við mjög farsælt samstarf við Coolbet sem héldu alls 8 undanmót sem skiluðu 18 miðum. Coolbet bauð einnig upp á þá skemtilegu nýjung að leyfa veðmál á keppendur í mótinu. Vonandi verður hægt endurtaka það að ári. Og síðast en ekki síst þökkum við Dominos fyrir að fóðra starfsfólk alla helgina og keppendur á lokametrunum.  Alls komu 55 miðar út úr undanmótum í þetta sinn.
 
Við óskum öllum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn á mótinu og Örnólfi sérstaklega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn!!